Framhald af reynslusögu Auðar – eftir 7 mánuði af RIE

Breytingin

Nú eru komnir sirka 7 mánuðir frá því að við tileinkuðum okkur RIE uppeldisaðferðina. Börnin mín hafa breyst dalítið í hegðun. Þau eru að taka færri grátköst og færri „frekjuköst“ en þau gerðu áður, Þau tala fallegar til okkar en áður, eru rólegri og njóta sín betur í leik.

Spjaldtölvan

Við höfum minnkað spjaldtölvunotkun. Nú er það þannig hjá okkur að þau fá fara í eins og einn leik 2-3x í mánuði sem er íslenskur tölu- og stafaleikur síðan fá þau stundum fá þau að hlusta á tónlist í spjaldtölvunni á meðan þau leika sér.

Áður en við kynntumst RIE þá var spjaldtalvan mun notuð oftar og það var oft erfitt að fá þau til að hætta án þess að það endaði með „frekjuköstum“ en þá urðum við vanalega pirruð og kölluðum þau frek og vanþakklát. Eftir breytingarnar segjum við frekar, ,,jæja elskan mín, eftir smástund ætla ég að biðja þig um að slökkva á tölvunni. Ég tel tímann í 5 mínutur og þegar ég bið þig um að slökkva þá vil ég að þú hlustir á mig”. Það er alveg ótrúlegt að þetta virkar. Þau hlusta á mig í hvert sinn. Þá hrósa ég þeim fyrir að hafa hlustað á mig með því að þakka þeim fyrir og láta þau vita að mér þyki vænt um þegar þau hlusta á mig og eru hjálpsöm.

Auðvitað koma tímar sem þau hlusta ekki eða tefja það að slökkva. Þá segi ég ,,núna ætla ég ekki að leyfa þér að vera lengur í tölvunni” ,,mér sýnist þú eiga erfitt með að slökkva sjálf, ég ætla að hjálpa þér að slökkva núna.” Nánast undantekningarlaust vilja þau ekki hjálp og slökkva frekar sjálf.

Leikur

Ég hef minnkað dótið hjá þeim og hef reynt að losa mig við “batterí-leikföng” sem eru með hljóði eða blikka á einn eða annann hátt. Eftir að ég tók þesskonar leikföng alveg út varð ég strax var við það að þau byrjuðu að nota ýmundaraflið meira og leika sér betur.

Ég minnkaði fjölda leikfanga líka, áður var strákurinn minn til dæmis með fullan kassa af bílum, en núna er hann með hámark 5-7 bíla til að velja úr og hann leikur sér meira með bíla núna. Barbie dótið er komið inn í skáp og er bara tekið fram af og til. Núna leikur stelpan sér betur með barbí en áður var bara allt barbíið hent í gólfið og ekkert leikið með. Ég kaupi af og til eitthvað sem ég myndi flokka undir “RIE” leikföng. Eins og opinn efnivið, perlur, gimsteina, trébúta, trékubba, leir, bolla og fleira. Þannig erum við að safna opnum efnivið hægt og rólega. Ég sé hvað þau njóta þess mikið að nota þessa hluti í leik, mér finnst það er alveg magnað.

Þau endast líka lengur í leik. Ég bjó til leikhorn í stofunni þar sem við búum þröngt í lítilli íbúð. Leikhornið er stór gólfmotta í stofunni og það er okkar “já svæði”. Þar meiga þau allt og þeim finnst það æðislegt. Þau njóta þess mikið og detta oft í djúpa leiki. Þá get ég verið í sófanum að dunda mér við að brjóta saman þvott eða eitthvað annað en samt fylgst með börnunum að leika. Ég reyni að vera nógu mikið að fylgjast með að ég geti mætt þeim með augnsambandi ef þau líta upp.
Þá segi ég upphátt það sem ég sé eins og “já, ég sé þú ert að leika með x”, “þér finnst þetta stórt”, eða ,,þú settir alla bílana inní húsið”. Einnig hef ég verið að leyfa þeim að nota pallinn úti meira. Eina skilyrðið er að þau sé klædd eftir veðri. Þau meiga taka dót út með sér og þar er svona hálfgert “já svæði” líka. Eina reglan útá palli er að það er bannað er að fikta við útigrillið okkar. Ég er hætt að segja “nei þetta má ekki”, eða “hættu að gera þetta” heldur segi ég þeim frekar hvers ég ætlast til af þeim og set þeim mörk með öðrum orðum ef é gþarf þess. Börnin eru farin að biðja mig meira um leyfi fyrir hinu og þessu og svo virða þau því sem ég svara.

Matartími

Við erum orðin miklu rólegri á matmálstímum. Áður fyrr uðrum við fljótt við pirruð ef þau léku sér með matinn, smökkuðu ekki allt eða kláruðu ekki. Við hótuðum eða buðum verðlaun fyrir að borða allt af disknum. En nú höfum við ekki gert það síðan í apríl og allt þetta stress í kringum matinn er hætt. Við borðum bara sem við getum og leyfum þeim að fara frá borðinu þegar þau eru búin. Líka ef þau vilja ekki borða neitt, þá spyr ég hvort þau séu örggulega búin og ef þau svara já það er það bara þannig.

Ég leyfi þeim samt ekki að sulla viljandi eða henda mat undir borð því þá eiga þau bara frekar að ganga frá. Ef þau eru ekki svöng þá vil ég bara að þau segi mér það. Ég finn hvað þeim finnst þetta gott og þægilegt fyrirkomulag.

Grátur

Börnin mín eru orðin vön því að meiga gráta þegar þau vilja eða þurfa. Sumir nánir ættingjar segja oft við þau, ,,vá frekjan í þér” eða ,,þú færð ekki x nema þú hættir að gráta”. Það var einn gestur í heimsókn um daginn sem sagði: ,,hættu þessari frekju, bara frekjur gráta” en þá svaraði litli minn bara með því að öskra: ,,víst má ég gráta. Það meiga allir gráta því það er þæginlegt”. Og svo horfir hann á mig til að fá samþykki. Ég átti erfitt með að hlæja ekki. En ég sagði ,,já þú mátt gráta.” En litli var mjög sár og hélt áfram. Hann þurfti bara að losa. Gesturinn leit á okkur með stórum augum og vissi ekkert hvað átti að segja.
Eftir að við byrjuðum að leyfa gráturinn, viðurkenna tilfinningarnar og vera róleg þegar þau eiga erfitt með sig finnst mér þau taka miklu færri köst og gráta yfir höfuð minna, alveg ótrúlegt hvernig þetta virkar!

Búðarferðir

Eitt skipti í costco sáu börnin mín stelpu sem var um 5 ára gömul sem grét og grét í röðinni því hún fékk ekki sem hún vildi. Þá segir 3 ára strákurinn minn: ,,Mamma sjáðu, hún er að gráta því henni finnst svo leiðilegt að fá ekki þetta nammi.” Ég sagði ,,já ég sé.” En þá spyr hann: ,,afhverju má hún ekki gráta? Mamma hennar sagði henni að hætta að gráta.” Ég sagði bara: ,,stundum segja aðrar mömmur og pabbar svona. En kannski er mamma hennar bara þreytt og gleymir sér.” Því ég vissi ekki alveg hverju ég ætti að svara. En þetta var mikið pæling hjá honum á leiðinni heim. Hann spurði mig endalaust af spurningum. Afhverju mátti hún ekki gráta og afhverju má ég bara gráta? Þannig að hann er greinilega eitthvað að spá í þessum hlutum og fyrir honum uppeldið hjá okkur það eðilega. Þetta gerir mig rosalega ánægða því mér líður eins og þetta sé eitthvað að skila sér.

Annars voru börnin mín alltaf sníkjandi í búðum og við urðum alltaf pirruð og sögðum við þau: ,,Ef þú hættir ekki þá ferðu útí bíl” En það leysti aldrei málið! Nú eru börnin mín alveg hætt að sníkja og ef þau biðja um að fá eitthvað í búðinni og svarið er nei. Þá sætta þau sig við það og hætta að spurja. Besta leiðin er að viðurkenna tilfinningarnar þeirra á sama tíma og halda mörkunum. Ótrúlegt en satt.

Eldra barnið

Eldri stelpan mín er 6 ára og ég verð að segja það, að það er erfiðara að venja hana á þessa nálgun. Ég gefst samt ekki upp. Ég get alveg gleymt mér soldið með henni eða við báðir foreldrarnir. Hún finnur það á sér þegar við foreldrarnir erum þreytt og ýtir strax á veiku punktanna. En hún veit það að hún má tjá sig og hún má gráta. Það sem ég er í vandræðum með núna er að hún skellir hurðum soldið mikið og verður reið yfir minnstu hlutunum. Hún er með mjög stórar tilfinningar og mikið skap. Við erum ennþá að reyna finna réttu nálgunina á þetta og reyna að vinna með henni. Hún er öll önnur samt, áður var hún alltaf með vesen varðandi fatnaðinn sinn, vildi ekki nota gleraugun sín og var með vesen þegar vinkonur komu í heimsókn. Hún var í miklum mótþróa og tók köst mörgum sinnum á dag. Þetta er ekki lengur issue hjá okkur. Við höfum náð að bæta það og tæklað það með RIE. En við erum ennþá að læra og það er bara ótrúlega gaman.

Breytingar á heimilinu

það hafa orðið miklar breytingar hjá okkur á heimilinu. Ég byrjaði í fullu námi, pabbi barnanna er farinn að vinna miklu meiri yfirvinnu og er einnig í hlutanámi. Þetta hefur allt áhrif á börnin. Þau finna það að við höfum með minni tíma en ég reyni að skipuleggja mig þannig að ég sé með þeim eftir skóla þangað til þau fara sofa. Ég er samt þakklát því að hegðunin hefur ekkert versnað neitt við þessa breytingu. Kannski útaf því að við erum dugleg að passa tímann með þeim. En okkur finnst þau leita í auka athygli frá okkur samt.

Ég myndi segja að ég sjálf sé svona 90% af tímanum að nota RIE nálgunina því ég er enn að læra og á það alveg til að gleyma mér. Þá fæ ég alltaf samviskubit og bakka aðeins. Horfi á aðstæðurnar og útskýri fyrir börnunum að nú hækkaði mamma röddina sína því mér hafi brugðið, eða að ég sé mjög þreytt og pirruð í dag. Ég næ oftast að fara í annann gír og segi: ,,nú ætla ég að hlusta á þig, segðu mér hvað er að”. Maðurinn minn gleymir sér aðeins meira en ég. Hann er oft þreyttur eftir vinnu og það er hans afsökun 🙂 en hann er að gera sitt besta og er líka að læra.

Rifrildi milli systkina

Það er mjög áhugavert hvernig vinir barnanna horfa þegar ég leyfi börnunum að klára rífast eða gráta. Þau „klaga“ en sjá að ég geri voða lítið í málinu. Stundum fæ ég spurningar frá vinum þeirra hvers vegna þau megi gráta og þá útskýri ég fyrir þeim að heima hjá okkur þá sé það í lagi. Það má allt nema að meiða. Ég þarf orðið mjög sjaldan að ,,blokka” hendur eða fætur þegar þau eru að rífast. Ég segi þeim að stundum að ég skilji að það sé erfitt að þurfa að deila herbergi og þá fari maður stundum að rífast. En þið eigið þetta herbergi saman og þið verðið að læra að finna útúr því hvernig þið leikið hér inni.

Svefntíminn

Áður en ég kynntist RIE þá var svefntími hræðilegur. Þau voru alltaf að stríða okkur og koma fram og vildu bara ekkert fara sofa en núna þegar þau fara sofa þá eiga þau það til að koma stundum aftur fram, en eftir að ég breytti um nálgun og í stað þess að pirrast byrjaði að segja: ,,mér sýnist þig vanta auka knús fyrri svefninn.” Þá eru þau hætt að koma fram að stríða okkur og koma frekar fram og segja: ,,mamma mig vantaði bara auka knús. Þú leyfir mér alltaf að koma knúsa þig.” Svo fara þau bara að sofa. Mjög einfalt.

Breytingar hjá börnunum

Mesta breytingin sem ég hef tekið eftir er: að börnin eru jákvæðari, hjálpsamari, þau bera meiri virðingu gagnvart öðrum og hafa lært að leysa málin sjálf. Þau eru opnari við mig og spyrja allskonar spurninga. Þau spyrja mig mjög oft: ,,mamma ertu í góðu skapi?” Og ef ég segi já þá segja þau,,Þá líður þér vel mamma.”

Þau nota mikið ,,ég sé” og ,,ég skil” og ég hef heyrt þau segja þetta við vini sína. Mér finnst það magnað, því þá veit ég að ég sé að gera eitthvað rétt 🙂

Mesta breytingin sem ég hef tekið eftir er: að börnin eru jákvæðari, hjálpsamari, þau bera meiri virðingu gagnvart öðrum og hafa lært að leysa málin sjálf

Breyting hjá okkur foreldrunum

Sem foreldri þá finn ég að ég er minna stressuð, ég treysti börnum mínum meira og sé að þau geta mikið meira en við höfðum áður búist við. Ég gæti tekið dæmi í sambandi við sundferðir: áður fyrr þá var ég svo rosalega stressuð í sundferðum, var alltaf að segja ,,passaðu þig”, ,,komdu hingað” og þess háttar. En við fórum til kanarí í september og þá ákvað ég að sleppa aðeins takinu og reyna að slaka á og treysta. Við vorum á hótelinu og við sundlaugina daglega. Ég ákvað að vera minna stressuð. Þau voru með kúta og ég sat við bakkann og var með gott útsýni á börnin. Þau náðu niður á botn í lauginni og ég fylgdist með þeim. Það kom mér á óvart hvað þau voru klár í lauginni. Þau voru í lauginni tímum saman og nutu þess í botn. Enginn var að trufla krókódíla og hafmeyju leikinn. En hefði ég verið stressuð, alltaf að kalla ,,passaðu þig” eða ,,hættu þessu” þá hefði þeim öruglega ekki þótt jafn gaman í ferðinni eins og þeim fannst. Og að því að þau nutu sín svona mikið að þá nutum við foreldrarnir þess líka að horfa á þessi dásamlegu börnin okkar. Auðvitað þarf maður að fylgjast vel með en það er óþarfi að trufla alltaf.

RIE hjá grunnskólabarninu mínu

Núna er dóttir mín allt í einu að stækka svo hratt og komin í fyrsta bekk og er ég að reyna finna út hvernig sé best að fara með heimanámið og allt sem tengist skólanum. Hvernig ég ætti að hrósa henni fyrir velgengni í lestri og hvernig ég ætti að hvetja hana til lesturs þegar hún er ekki að nenna því. Ég hef verið að passa mig að múta henni aldrei. Hún spyr mig stundum: ,,ef ég geri x má ég þá fara í tölvuna?” eða ,,ef ég má ekki gera þetta þá ætla ég ekki að lesa neitt í dag.”

Það sem ég hef verið að vinna mikið með núna er að spegla. ,,Spegillinn” er eitt af mínum uppáhalds aðferðum úr RIE. Það virkar svo vel á hana. Ég endurtek allt án þess að dæma: ,,þú segir að þú ætlar ekki að lesa ef ég leyfi þér ekki fara í tölvuna.” ,,Já þú vilt fara í tölvuna því hún er með svo spennandi leik. Þú vilt ekki lesa.” Svo bæti ég kannski við: ,,Ef þú lest ekki þá kemstu ekki að því hvað stendur í bókinni. Þá veistu ekki hvað hinir krakkarnir eru að lesa um.” Og það fær hana til að hugsa sig um. Hún vill auðvitað ekki missa af því sem hinir lesa. Við erum aðeins að prófa okkur áfram í þessu en þetta virðist virka eins og er, að spegla það sem hún segir og að ég haldi ró minni.

Ég hrósa henni með því að segja, ,,nei sko þú mundir eftir þessum staf”, eða ,,bíddu gastu lesið heilt nafn?” Þá verður hún svo ánægð. Þá segi ég henni: ,,þú hlýtur að vera ánægð með að geta lesið heilt nafn.” Og ég fæ bara fallegt bros og stoltan svip frá litlu stelpunni minni.

Hvernig ég tala við börnin núna

Ég tek stundum eftir því að ég sé hætt að segja ýmsa hluti við börnin, eins og ,,hættu” ,,ekki gera þetta” ,,láttu ekki svona” ,,vertu góð” ,,gerðu þetta og hitt” eða ,,passaðu þig.” Allar skipanir eru hættar og tala ég við börnin sem meira sem jafningja. Ég er farin að hrósa öðruvísi. Ég hrósa alveg en ekki á hefðbundin hátt. Ég segi frekar ,,þú gerðir svo stóran kastala”, ,,,ég sé marga liti í teikningunni” og ,,þú hjólaðir svo hratt.”
Ég er hætt að nota allskonar lýsingarorð eins og dúlla, sæta eða duglega. Það sem ég sagði voðalega mikið er: ,,þú ert fallegust.” Sem mér finnst auðvitað en það þarf ekki að segja þetta, ég er farin að segja, ,,ég sé þú ert í svo síðum kjól með blómum.” Þá blómstrar barnið alveg. Besta hrósið sem hægt er að fá því mamma sér mig og tekur eftir mér.

Ég reyni að segja aldrei hvítar lygar eins og að það sé t.d. ekki til nammi ef það er til nammi. Ég segi frekar að ég ætli ekki að gefa nammi núna. Og þau virða það.

Ég viðurkenni tilfinningarnar þeirra, segi þeim að ég elski þau og að ég elski að vera með þeim. Það þarf bara að segja hvernig hlutirnir eru og vera hreinskilin. Ég finn fyrir betri tengingu við börnin sem er best í heimi.

Fólkið í kringum okkur

RIE aðferðin er bara í okkar uppeldi og eru allir ættingjar okkar sem nota gömlu aðferðina á börnin okkar, ég er bara búin að samþyggja það að ég geti ekki breytt því og að börnin verða bara að læra það að það sé öðruvísi á öðrum heimilum. Það eina skilyrði sem ég set þegar þau umgangast aðra ættingja eins og ömmu og afa sinn. Að ég vil ekki að þeu séu sett í skammakrók eða að þeim sé refsað fyrir það að tjá sig eða gráta.

Það er mjög fyndið hvernig ættingjarnir tóku því vegna þess að núna ef barnið mitt fer að gráta þá reyna þau að snúa útúr. Þótt það sé ekki RIE þá er það skárra en skammakrókur. Fyrst þegar ég tileinkaði mér RIE þá fannst mér svo pirrandi að sjá fólk í kringum mig sem skammaði börnin sín eða notuðu gömlu aðferðina. En ég má ekki dæma þar sem ég var sjálf svona og vissi ekki einu sinni sjálf að það væri hægt að gera hlutina á annann hátt. Ég held að allir foreldrar séu að gera sitt best í uppeldinu og þekkja ekki neitt annað.

En áður ég heyrði af RIE þá var ég búin að vera horfa á þættina SOS Nanny og hélt ég myndi finna lausnina við „frekjuköstum“ dóttir minnar þar. En núna þegar fólk spyr mig útí RIE þá segi ég oft að það sé einmitt öfugt við það sem er gert í þessum þáttum. Og reyni að deila því með þeim hvað RIE stendur fyrir.

Respectful Parenting er snilld

Mér finnst við enn eiga eftir að læra margt en RIE svo sannarlega hefur breytt lífinu okkar. RIE vakti svo mikin áhuga hjá mér að ég tók U-beygju í námi mínu, hætti við að læra það sem ég var búin að skrá mig í og byrjaði að stunda nám við sálfræði þar sem ég hef svo mikin áhuga á hegðun og tilfinningum fólks.

 

Höfundur – Auður Rakel Georgsdóttir

 

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

(1)