Hvaða leikfang á ég að gefa barninu mínu?

Hver hefur ekki upplifað það að kaupa rándýrt, stórsniðugt þroskaleikfang fyrir barnið sitt sem, okkur til mikilla vonbrigða, lítur ekki á leikfangið heldur leikur sér heillengi með ekkert nema umbúðirnar utan af leikfanginu?

Magda Gerber trúði á ,,virk börn í staðinn fyrir virk leikföng”. Hún hvatti foreldra til að bjóða börnunum sínum upp á leikföng sem þau geta sjálf skoðað á allan mögulegan hátt, á sínum eigin forsendum og með sínum eigin leiðum. Leikföng sem börnin okkar geta lært að skilja og áttað sig á. Leikföng sem setja börn ekki í passíft hlutverk áhorfanda sem er skemmt.

Þetta eru leikföng sem eru oft sögð vera opinn efniviður með enga fyrirfram ákveðna virkni. Efniviður sem börn geta notað á margskonar hátt og ýtir þannig undir sköpunargleði, ímyndunarafl og áhuga. Þessi leikföng eru ekki endilega flokkuð sem ,,leikföng” heldur geta verið hversdagslegir hlutir sem hægt er að finna í umhverfi okkar, inni á heimilinu eða úti í náttúrunni.

 

Leikfangafrumskógurinn

Leikfangaheimurinn getur stundum verið eins og ógnvekjandi frumskógur þar sem loforð og setningar um þroska og velferð barnanna okkar í bland við ,,one-liners” um lífsnauðsynlega blikkljósabolta sem syngja stafrófið og litalagið vaxa á öllum trjám. Það sem á upphaflega að vera lauflétt ganga í gegnum skemmtilega leikfangafrumskóginn verður fljótt að þrautargöngu sem skilur okkur eftir út úr tætt af bugun og samviskubiti, í allsherjar kvíðakasti yfir því að barnið okkar muni aldrei læra að þekkja muninn á mömmu sinni og pabba nema það eigi púsluspil um fjölskyldutréð og helst verkefnabók með því.

Einn verðmætasti ávinningurinn af því að kynnast virðingarríku tengslauppeldi er hugarfarið sem foreldrum er boðið að tileinka sér þegar kemur að leik og leikföngum barna.

Foreldrar eru hvattir til þess að segja upp hefðbundna hlutverki ,,kennarans” og byrja að treysta því að börnin sín muni læra allt sem þau þurfa að læra með því að vera til í nærandi umhverfi í kringum fólk sem elskar þau og býður þeim af einlægni að taka fullan þátt í lífinu. Við tölum eðlilega við börnin frá upphafi, fylgjumst með því hverju þau sýna áhuga og leyfum þeim að rannsaka heiminn á sínum forsendum.

Let the child be the scriptwriter, the director and the actor in his own play - Magda Gerber

Við forðumst að hafa fyrirfram ákveðnar hugmyndir um leik barna. ,,rétt” eða ,,rangt” eru hugtök sem eiga ekki erindi inn í leiksvæði barns og við pössum okkur á því að taka ekki yfir, byrja að stjórna leiknum. Ef barn vill snúa bókinni á hvolf eða leggja legó kubbana sína niður hlið við hlið í staðinn fyrir að byggja úr þeim eins og ,,á að gera það” þá leiðréttum við það ekki. Barn er alltaf að gera akkúrat það sem það á að vera að gera.

Berum virðingu fyrir leiknum

Það sem skiptir ekki síður máli er að vera meðvitaður um það að trufla ekki barn sem er niðursokkið í leik.Að bera virðingu fyrir leik barna er mikilvægur partur af RIE og það felur í sér að vera tilbúin að bíða eftir því að barn líti upp úr leik að fyrra bragði áður en beðið er um athygli barnsins á einn eða annan hátt. Stundum er barn niðursokkið í hugsun sem lítur ekki út fyrir að vera sérstaklega merkileg við fyrstu sýn. Barn er kannski ekki að gera neitt sérstaklega mikið, það situr kannski bara með eina trésleif og handleikur hana hægt og rólega, starir á hendurnar sínar eða talar við sjálft sig meðan það skoðar nammibréf utan af konfektmola í fjölskylduboðinu. En látum ekki blekkjast! Því þegar lítið virðist vera að gerast í leik barns “út á við” er oft einmitt gríðarlega mikið að gerast “inn á við”, ímyndunaraflið á fullu og einbeitingin mikil.

Ég fæ iðulega margar spurningar um það hvaða leikföng styðji við þessi atriði og hef ég ákveðið að taka saman smá leikfangalista af mínum uppáhalds leikföngum og hlutum.

Ungabörn

Fyrstu mánuðina eru leikföng einfaldlega óþörf. Við setjum aldrei leikfang í hendur barns og það er ólíklegt að barn muni á þessum fyrstu mánuðum lífsins hafa náttúrulega hreyfigetu til þess að teygja sig sjálft í og taka upp leikfang. Auk þess er grip ungbarna mjög óþroskað fyrstu mánuðina. Þegar við leggjum fingur niður í lófa ungabarns gerir náttúrulegt viðbragð ungabarnsins það að verkum að það grípur um fingurinn (e. grasping reflex).

Að sama skapi mun barn að öllum líkindum loka lófanum og grípa þannig um leikfang sem er sett í lófa þess. En þar sem þetta eru ósjálfráð viðbrögð er erfitt fyrir okkur að gera greinamun á því hvort barnið vilji í raun halda á leikfanginu eða ekki. Ungt barn getur illa opnað lófann aftur og getur þess vegna ekki kosið að leggja frá sér leikfangið þegar það hefur fengið nóg.

Hendur barnsins eru oft kallaðar fyrsta leikfangið og börn eyða miklum tíma í að rannsaka þessi litlu kraftaverk. Hitt næsta leikfang ungabarns er einfaldlega allur heimurinn í kringum það. Allt sem barnið sér er nýtt fyrir því og fyrstu mánuðina fær það gríðarlega örvun með því bara að vera til, horfa í kringum sig og skoða það sem fyrir augu ber svo ekki sé minnst á andlitin okkar sem þau elska hvað mest að horfa á.

      

Fyrsta grip

Á öðrum til þriðja mánuði byrjar ungabarn að öðlast meiri stjórn á höndunum sínum. Það byrjar að geta haldið aðeins aftur af ósjálfráða viðbragðsgripinu (e. grasping reflex) og getur aðeins farið að grípa sjálfviljugt í hluti í kringum sig. Það er á þessum tíma sem við byrjum að setja vel valin leikföng í kringum höfuð/líkama barnsins þar sem það liggur á bakinu í öruggu umhverfi (vöggu, rimlarúmi, leikteppi…). Það er mikilvæg hreyfing fyrir barn að snúa höfði og ef barn er lagt niður á bak þá fær það tækifæri til að skoða í kringum sig. Það er þá sem það mun reka augun í leikföngin sem liggja í kringum og byrja að teygja sig eftir þeim. Þá getum við alltaf verið viss um að það leikfang sem barnið grípur í er leikfang sem það hefur raunverulegan áhuga á og hefur fangað athygli barnsins.

Þar sem barn er bara rétt að byrja að grípa á þessu þroskastigi og hefur ekki mikla stjórn á hreyfingunum sínum ræður það best við létt leikföng sem auðvelt er að taka í og skoða. Efnisklútar, silki, bollakökuform úr sílikoni, hringakeðja, naghringir, léttar mæliskeiðar, litlir bollar úr þunnu stáli og O-boltar eru t.d. allt mjög hentugir hlutir til að bjóða upp á í umhverfi barnsins.

 

Þroskað grip

Fljótlega tökum við eftir því að barn hefur meiri stjórn á hreyfingum sínum og grip verður að vandaðri hreyfingu sem barn getur unnið með að meiri nákvæmni en áður. Oft er barn á þessum aldri búið að læra að snúa sér á magann og hefur öðlast meiri styrk í líkama og höndum. Það getur þá meðhöndlað þyngri og flóknari hluti. Áfram reynum við að forðast það að setja leikföng í hendur barns heldur leggja áhugaverða hluti frekar í kringum barnið svo að það í fyrsta lagi geti ákveðið sjálft hvað það rannsakar en einnig til að hvetja barn til að hreyfa sig. Eldhússkápurinn verður okkar besti vinur þar sem stálskálar og sigti, sleifar, plastform og mæliskeiðar vekja mikinn áhuga sem og leikföng á hjólum, hárrúllur úr plasti og leikföng sem hægt er að setja saman (e. nesting).  Sundbolti sem er ekki blásinn upp alla leið (svo litlir fingur geti gripið í plastið) vekur mikla lukku enda finnst ungum börnum ótrúlega spennandi að geta meðhöndlað svo “stóran” hlut eins og sundbolta.

 

Skríðandi barn

Þegar barn byrjar að skríða og síðan setjast upp opnast nýr heimur fyrir því. Boltar eða leikföng sem rúlla eiga nú alveg einstaklega vel við því barn getur skriðið á eftir því sem rúllar í burtu. Klifurhúsgögn eins og Pikler þríhyrningurinn, plankar og tré-box/kassar gera umhverfi barnsins einstaklega áhugavert og býður því upp á að æfa hreyfingarnar sínar á náttúrulegan og öruggan hátt. Áhugi fyrir því að setja hluti inn í “göt” og hólf er mikill sem og það að athuga hvaða hlutir passa ofan í aðra. Einnig leitast barn á þessu þroskastigi mikið í æfingar sem æfa fínhreyfingar eins og t.d. að setja hringi á stöng (e. stacking tower).

 

Gangandi barn

“Build and carry” er þroskastigið oft kallað þegar barn er nýbyrjað að ganga. Gangandi barn verður nefnilega fljótt áhugasamt um að lyfta og halda á hlutum, safna leikföngum í litla poka, flytja hluti á milli íláta og staða og draga eitthvað á eftir sér. Einnig getur eldra barn byrjað að prufa sig áfram með málningu og leir. Kubbar gegna mikilvægu hlutverki, Magnatiles og Water Blocks eru frábærir áhugaverðir kubbar. Klifurhúsgögnin eru áfram notuð af krafti nema nú á annann hátt þar sem nýfundni hæfileikinn til þess að standa á tveimur fótum er æfður af krafti.

Hlutverkaleikur

Hlutverkaleikurinn gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í leik barns. Í gegnum hlutverkaleik er ímyndunaraflið mjög virkt en svo notar barn líka oft hlutverkaleik til þess að endurlifa atriði sem það hefur upplifað í sínu daglega lífi, máta hegðun, æfa reglur eða jafnvel vinna sig í gegnum erfið atriði sem hafa komið upp í kringum það.

   

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *