Sportscasting / “Að lýsa leiknum” – Hvað er það og hvernig á að nota það?

Sportscasting er orð sem kemur frá Janet Lansbury einni helstu talskonu RIE stefnunnar í heiminum í dag og hefur það á stuttum tíma orðið að mikið notuðu hugtaki í stefnunni sjálfri og víðar. Í íslenskri þýðingu tala ég oft um það “að lýsa leiknum” og finnst það ná ágætlega utan um merkingu orðsins, en hvað þýðir það samt, að “sportscast-a” eða “að lýsa leiknum” í uppeldi?

Sportscasting er það þegar við segjum upphátt það sem við sjáum í aðstæðum. Við segjum bara staðreyndir án þess að dæma eða segja okkar skoðun á atriðinu sem við erum að “lýsa” (sama hvort um jákvæða eða neikvæða skoðun er að ræða).

Sjáið fyrir ykkur íþróttafréttamann lýsa handboltalek: “Guðjón Valur nær boltanum, það er hraðaupphlaup, Guðjón sendir á Snorra Stein sem stekkur upp, Snorri skýtur á markið. Markmaðurinn ver.“ – íþróttafréttamaðurinn lýsir hverri hreyfingu, hverjum leik, eins og hann er. Hann er hlutlaus, hann kemur ekki með tillögur, hann skerst ekki í leikinn, hann segir upphátt það sem hann sér.

Við notum Sportscasting í allskonar aðstæðum en helst þegar börnin okkar eiga í erfiðleikum með eitthvað eins og tilfinningarnar sínar, samskipti, að klára verkefni eða takast á við nýjar aðstæður. Í staðinn fyrir að skerast í leikinn þá lýsum við því sem er að gerast, rólega og með eðlilegri röddu, upphátt fyrir barninu.

 

Þegar við notum Sportscasting gefum við börnunum okkar tíma til þess að takast á við allskonar krefjandi aðstæður eða verkefni – það verður til rými fyrir lærdóm og “problem solving” og þau þjálfast í því að gefast ekki strax upp á því sem þau tóku sér fyrir hendur þrátt fyrir erfiðleika eða pirring.

 

Það er nefnilega þannig að hvenær sem börnin okkar eiga erfitt með eitthvað, hvort sem það púsl-kubburinn sem virðist ekki passa sama hvernig er reynt, sokkurinn sem hefur einhvernveginn flækst í 7 hringi á stóru tánni eða rifrildið sem kemur upp yfir leikfangabílnum sem allir vilja allt í einu leika við á sama tíma – sama hvað það er þá eru okkar fyrstu viðbrögð oftast að stökkva til og hjálpa, laga, bjarga.

Við sýnum þeim að þau þurfi bara að snúa púslinu svona, leysum stóru tánna úr læðingi sokksins á núll einni og woilah! Tilbúin! – eða förum í dómarahlutverkið og greiðum úr stóra leikfangabílarifrildinu með okkar leiðum “Anna var að leika við bílinn” (tökum leikfangið og látum Önnu fá það aftur) “Anna má leika með hann í 2 mínútur, síðan mátt þú leika Jói, ég tek tímann!”

 

Þroskaþjófur er frábært orð sem kom upp á einu námskeiðinu hjá mér. Við verðum nefnilega þroskaþjófar þegar við grípum sífellt inní í stað þess að stoppa, sportscasta, gefa rými og treysta þeim að finna útúr hlutunum sjálf.

“Þú ert að reyna eins og þú getur að setja saman púsluspilið. Ah það getur verið pirrandi þegar púslið passar ekki.”

“Anna var að leika við bílinn, nú er Jói með hann. Þið viljið bæði vera með bílinn. Anna er að reyna að fá bílinn aftur..  hmmm hvað getum við gert? … Jói, ég ætla ekki að leyfa þér að slá.”

“Mér sýnist Vala ekki vera tilbúin til þess að faðma/kyssa/leika við Ara núna. Kannski næst”

“Þig langar að reima skóna sjálf/ur. það getur verið erfitt þegar manni tekst ekki að gera það sem manni langar að gera.”

“Spagettíið dettur aftur og aftur niður af gafflinum, ég sé, þú ert ósátt/ur, þig langar að ná öllu spagettíinu uppá gaffalinn”

Í gegnum Sportcasting náum við að senda börnunum okkar nokkur mikilvæg skilaboð:

Hvernig Sportskasta ég?

Við stoppum við fyrst, höldum ró okkar og hjálpum sem minnst – kannski getur barnið klárað verkefnið eða tekist á við það sem það á í erfiðleikum með án okkar hjálp.

Þegar pirringur eða reiði verður meiri þá segjum við upphátt það sem við sjáum – “þú vildir leika þér lengur með dúkkuna en nú er Lóa með hana”

Við sýnum skilning og samkennd með því að nefna tilfinningarnar sem barnið er að upplifa : “Mér sýnist þú vera mjög ósátt/ur”

Við sporstköstum líka þegar við sjálf erum ástæðan fyrir pirringnum  “Ég heyri, þú ert ósátt/ur við að fá ekki annan ís, þér finnst ís góður og þig langar svooo mikið í annan!” – “Þú vilt hafa ljósin kveikt en ég slökkti því nú er komin háttaatími – þú ert mjög ósátt/ur”

Við búum til umhverfi þar sem þau geta sjálf komið með hugmyndir að lausnum “hmm, hvað getum við þá gert?”

Ef við sjáum svo að barnið okkar þarf meiri aðstoð frá okkur en stuðninginn sem við sýnum þegar við sportsköstum þá reynum við að hjálpa þeim eins lítið og hægt er, tökum fyrsta skrefið í að hjálpa. Kannski spurjum við þau hvort það sé nokkuð litla táin sem sé föst í sokknum? eða hvort það sé nokkuð hægt að sækja boltan ef við förum hinum megin við grindverkið? en þannig fá börnin okkar samt að “eiga” verkefnin sín sjálf en við viljum nefnilega ekki taka yfir og “stela” þannig reynslunni, litla sigrinum sem þau upplifa þegar eitthvað klárast.

 

Með því að sportkasta ýtum við líka undir meðvitund og ákveðna núvitund hjá barni “þú ert að fara að labba niður stigann” hefur frekar þau áhrif að barn passi sig og vandi sig við það að fara niður stigann en þegar við köllum t.d. “passaðu þig!” – af hverju? nú vegna þess að við hjálpum þeim að einbeita sér á það sem er fyrir framan þau með því að segja það upphátt.

Þegar eldra systkini er að hnoðast í því yngra og á erfitt með að passa sig er líka gott að sportskasta til þess að ýta undir meðvitund og hjálpa þannig barni að passa sig og vera meðvitaðra um viðbrögð og líðan systkini síns “Þú ert að knúsa Óla mikið, þú rúllar þér yfir Óla, Óli hlær,,, Nú ertu að knúsa hausinn, Óli er að kvarta, mér heyrist Óli vera ósáttur, hmmm…” – Það er gott að minnast á það að við stöðvum samt alltaf barn sem er að meiða annað barn þannig að í þessu tilfelli ef Anna hættir ekki eða breytir ekki um stellingu þá myndum við stöðva hana ef Óli færi að gráta eða væri orðin mjög ósáttur. En með því að sportskasta og lýsa leiknum fyrir báðum börnum þá verður þessi mikilvæga meðvitund fyrir viðbrögðum og líðan hins barnsins skýrari og oftar en ekki er það nóg til þess að barn passi sig betur í aðstæðunum, róist sjálft og skipti um stefnu án þess að foreldri þurfi endilega að skerast í leikinn.

Að lýsa leiknum á þennan hátt hjálpar líka til við málþroska hjá ungum börnum þar sem við setjum staðreyndir í orð en einnig hefur það mjög góð áhrif á tilfinningagreind barna að heyra okkur setja líklegar tilfinningar þeirra í orð á þennan hátt.

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *